Eldingar seinka lestum

AFP

Eldingum hefur slegið ítrekað niður í suðurhluta Englands í dag og meðal annars valdið seinkunum á lestarkerfinu þar í landi. Á einstaka stöðum hafa allar lestaferðir fallið niður sökum bilanna sem rekja má til eldinga. Óveður geisar nú á svæðinu en auk þrumuveðursins er mikil úrkoma. Varað hefur verið við bílaumferð þar sem mikið regnvatn hefur safnast saman á umferðargötum.

Fyrrihluti september var sá þurrasti í meira en hálfa öld í suðurhluta Englands og kemur úrhellið því eins og þruma úr heiðskíru lofti. Áður en óveðrið gekk í garð í nótt hafði verið einstaklega hlýtt á svæðinu og var meðal annars 26 gráðu hiti í borginni Sussex, tíu gráðum yfir meðalhita septembermánaðar í héraðinu. Búist er við frekari úrkomu og eldingum í dag en óveðrið stefnir um þessar mundir á Miðhéruð Englands og Wales.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert