„Faðir minn er skrímsli“

Martin MacNeill
Martin MacNeill The Salt Lake Tribune

Læknir í Utah í Bandaríkjunum, Martin MacNeill, hefur verið dæmdur sekur fyrir morðið á eiginkonu sinni og getur átt von á 17 árum til lífstíðarfangelsis. Þetta kemur fram á fréttaveitu CBS.

Sjö ár eru liðin frá því að MacNeill gaf eiginkonu sinni stóran lyfjaskammt og skildi hana eftir í baðkari þar sem hún lést, svo hann gæti byrjað nýtt líf með ástkonu sinni. Hjónin höfðu verið gift í um 30 ár og áttu saman 8 börn.

MacNeill, sem er 58 ára gamall, var fundinn sekur í tveimur ákæruliðum í málinu. Hann var dæmdur til 15 ára til lífstíðarfangelsis fyrir morðið auk eins til 15 ára fangelsis fyrir að hafa hindrað dómsmálið. Þá var hann dæmdur til eins til 15 ára fangelsis í öðru máli, fyrir kynferðisofbeldi. Mr. MacNeill, þú sviptir MicheleMacNeill lífi hennar, og nú mun Utahfylki svipta þig því frelsi sem þú hefur notið síðustu ár,“ sagði dómarinn, Derek Pullan.

Hefur aldrei sýnt neina iðrun

„Ásýnd föður míns hefur nú hrunið fyrir mér. Faðir minn er skrímsli. Hann hefur aldrei sýnt neina iðrun. Hann verður að vera dreginn til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar,“ sagði dóttir hans, Alexis Somers. Önnur dóttir mannsins, Rachel MacNeill, segir faðir sinn hafa slitið samband við alla fjölskyldumeðlimi eftir að móðir hennar lést.

Eiginkona MacNeills, Michele MacNeill var í upphafi talin hafa látist af náttúrulegum orsökum, mögulega hjartasjúkdómi, en fjölskylda hennar gekk á yfirvöld þar til kærur voru lagðar fram, fimm árum eftir dauða hennar. „Hann hélt að hún væri ekkert meira en hlutur sem hann gæti hent og losað sig við,“ sagði systir hennar, Linda Cluff.

MacNeill hefur haldið fram sakleysi sínu og sagði verjandi hans að eiginkonan hafi fengið hjartaáfall og dottið í baðkarið.

MacNeill kynnti ástkonu sína, Gypsy Willis, sem fóstru fyrstu vikurnar eftir að hafa drepið eiginkonu sína, en dætur hans sögðust fljótlega hafa áttað sig á því að þau ættu í ástarsambandi og hún hefði verið ástæða rifrilda foreldra þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert