Binda enda á upplausn í Jemen

Uppreisnarmenn í Jemen.
Uppreisnarmenn í Jemen. AFP

Yfirvöld í Jemen og uppreisnarmenn Shia Houthi hafa skrifað undir samkomulag sem miðar að því að binda enda á pólitíska upplausn sem ríkt hefur í landinu síðustu vikur.

Í samkomulaginu kemur fram að ný ríkisstjórn verði mynduð og uppreisnarmennirnir og aðskilnaðarsinnar úr suðri muni tilnefna nýjan forsætisráðherra innan þriggja daga.

Samkomulagið var gert aðeins nokkrum klukkustundum eftir að forsætisráðherrann, Mohammed Basindwa, sagði af sér í miðjum deilum milli uppreisnarmannanna og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar í höfuðborginni, Sanaa. Basindwa sagðist segja af sér til að auðvelda uppreisnarmönnum og forsetanum, Abdrabbuh Mansour Hadi, að ná samkomulagi.

Samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins var ein af kröfum Houthi fylkingarinnar að fá að mynda nýja ríkisstjórn og skipa nýjan forsætisráðherra. Framgangur þeirra og átök í höfuðborginni hafa því gert það að verkum að fylkingin fær sínu framgengt.

Fjöldi fólks hefur látist í átökunum og hundruðir hafa flúið Sanaa.

Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Mohammed Basindawa.
Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Mohammed Basindawa. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert