Þjóðstjórn mynduð í Afganistan

Forsetaframbjóðendurnir féllust í faðma eftir að hafa undirritað samkomulagið.
Forsetaframbjóðendurnir féllust í faðma eftir að hafa undirritað samkomulagið. AFP

Samkomulag um myndun þjóðstjórnar í Afganistan var í dag undirritað við hátíðlega athöfn í höfuðborginni, Kabúl. Andstæðar fylkingar hafa staðið í miklum deilum í kjölfar forsetakosninganna sem fram fóru í landinu í apríl og júní. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Ashraf Ghani verður nýr forseti landsins. Kjörstjórn lýsti Ghani sigurvegara kosninganna, en sá sem var annar í forsetakjörinu, Abdullah Abdullah, mun tilnefna mann í forstjórastöðu með völd sambærileg völdum forsætisráðherra.

Ekki var gefinn upp fjöldi atkvæða fyrir hvorn frambjóðandann fyrir sig, eða hver kjörsókn var, en ásakanir hafa verið uppi um kosningasvindl frá báðum aðilum. Mikil óvissa hefur ríkt í landinu síðustu mánuði sem hefur haft slæm áhrif á efnahag landsins og dregið úr öryggi.

Ghani og Abdullah undirrituðu samkomulagið í beinni sjónvarpsútsendingu frá forsetahöllinni í Kabúl og féllust svo í faðma.

Hamid Karzai, fráfarandi forseti landsins, óskaði mönnunum til hamingju og sagði samkomulagið stuðla að frekari framförum og þróun landsins. Þá hefur Bandaríkjastjórn lýst yfir ánægju með samkomulagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert