Útgöngubanni lokið í Síerra Leóne

550 manns hafa látið lífið af völdum ebólu í Síerra …
550 manns hafa látið lífið af völdum ebólu í Síerra Leóne á þessu ári. AFP

Íbúar Síerra Leóne mega ganga um götur landsins í dag eftir þriggja daga útgöngubann vegna ebólu-faraldursins. Yfirvöld segja að góður árangur hafi náðst síðustu daga og var ákveðið að framlengja bannið ekki.

Útgöngubannið tók gildi á föstudag. Göturnar voru auðar og þær sex milljónir sem búa í landinu héldu sig að mestu leyti heima. Um 30 þúsund sjálfboðaliðar ferðuðust til hverfa þar sem fólk er eða hefur verið sýkt af veirunni, en markmiðið var að finna þá sem veikir eru, hjúkra þeim og gefa fólki sápu.

Landið er eitt af þeim löndum sem hafa orðið hvað verst úti vegna veirunnar. Af þeim 2.600 manns sem látið hafa lítið af völdum ebólu voru 550 íbúar Síerra Leóne.

Yfirvöld í nágrannalandinu Líberíu hafa ákveðið að fjölga sjúkrarúmum úr 250 í 1.000 rúm á næstu vikum, en nokkuð er um að sjúklingar fái ekki pláss á sjúkrahúsum, fari því heim aftur og haldi áfram að smita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert