Sjóræningjar slepptu fanga

Hér sést sómalskur sjóræningi árið 2010 við strandlínu Hobyo í …
Hér sést sómalskur sjóræningi árið 2010 við strandlínu Hobyo í norðaustur Sómalíu. AFP

Sómalskir sjóræningjar slepptu í dag þýsk-amerískum blaðamanni og rithöfundi, Michael Scott Moore, en hann hafði verið í haldi þeirra í tvö og hálft ár.

„Blaðamanninum var sleppt og afhentur yfirvöldum í Puntland í dag,“ sagði ríkisstjóri Mudug í Sómalíu, Ahmed Muse Nur, við fjölmiðla.

Nafnlaus heimildarmaður meðal sjóræningjanna sagði að þeim hafi verið greitt lausnarfé fyrir að frelsa Moore sem var rænt í Sómalíu í janúar 2012.

Talskona utanríkisráðuneytis Þýskalands staðfesti í dag að „þýskum ríkisborgara, sem væri einnig með bandarískan ríkisborgararétt og hafði verið rænt í Sómalíu hafi verið frelsaður í dag.“ Hún gaf ekki upp frekari upplýsingar. 

Vefsíða þýska blaðsins Spiegel hafði eftir ónefndum öryggisverði að Moore væri í góðu ásigkomu lagi og glaður að vera frjáls.

Moore er 45 ára gamall og hafði starfað fyrir Spiegel í mörg ár áður en hann ferðaðist til Sómalíu. Þar ætlaði hann að skrifa bók um starfssemi sjóræningja í landinu. 

Síðan honum var rænt hafa sjóræningjarnir reglulega birt myndir af Moore á netinu. Þýsk og bandarísk yfirvöld hafa samið um lausn hans síðustu tvö árin. 

Árásir sjóræningja við strönd Sómalíu hafa minnkað töluvert síðustu ár, en alþjóðleg skip vakta nú Aden-flóa og Indlandshaf.

Á hápunkti sínum í janúar 2011, höfðu sómalskir sjóræningjar þó 736 gísla í haldi og yfirráð yfir 32 bátum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert