Héldu því fram að hún væri karl

mbl.is/afp

Dönsk kona var sökuð um að hylma yfir fyrir karlmanni þegar hún hugðist borga hraðasekt í vikunni samkvæmt Politiken. Lögregluþjónum þótti ljóst að um karlmann væri að ræða miðað við myndir á frá hraðamyndavél þrátt fyrir að konan héldi því staðfastlega fram að myndefnið væri hún sjálf.

Helle Stage, sem búsett er í Holbæk, var á 110 km hraða niður hraðbraut í Danmörku á leiðinni til vinnu eins og vanalega þegar hraðamyndavél smellti af henni mynd. Stage hafði yfirsést að tímabundið hafði leyfilegur hámarkshraði á veginum verið lækkaður í 80 km á klukkustund.Stage hringdi, eins og dönsk lög gera ráð fyrir, til lögreglu til að votta að hún hefði keyrt bílinn. Fyrsti lögregluþjónninn sem hún talaði við neitaði að trúa að kona gæti litið út eins og Stage og það gerði yfirmaður lögregluþjónsins líka.

Yfirmaðurinn tilkynnti Stage að málið yrði sent áfram til lögreglunnar í Kaupmannahöfn og að lögregluþjónar frá myndu koma að heimili hennar daginn eftir til að rannsaka málið. Þá var Stage allri lokið og þar sem hún vildi síður fá einkennisklædda lögregluþjóna upp að dyrum keyrði hún frá heimili sínu í Holbæk til Kaupmannahafnar þar sem hún fékk vottað að hún væri sannlega kona. 

Stage á tvö börn á unglingsaldri ásamt eiginkonu sinni og hún telur að túlkun lögreglu á myndinni stafi af fordómum. „Ég get einfaldlega ekki sætt mig við það að ég sé grunuð um græsku af því að ég líkist ekki staðalímyndinni af konu. Lögreglan hefur skyldu til að koma vel fram við almenna borgara, sama hvernig þeir líta út. Þau gáfu í skyn að ég væri glæpamaður og það er bæði fordómafullt og ógnandi,“ sagði Stage um upplifun sína við Politiken.

Talsmaður lögreglunnar segir að mál Stage hafi fengið eðlilega meðhöndlun að öllu leiti enda sé nauðsynlegt að rannsaka málið betur, vakni grunur um að reynt sé að hylma yfir þeim seka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert