Stálu verki sem er metið á tæpan milljarð

Listaverkið er metið á sex milljónir evra. Það var ekki …
Listaverkið er metið á sex milljónir evra. Það var ekki tryggt. AFP

Lögreglan á Kýpur leitar nú þjófa sem stálu afar verðmætu listaverki frá eldri borgara á eyjunni. Verkið er eftir franska meistarann Edgar Degas og er metið á um sex milljónir evra, sem samsvarar um 920 milljónum króna.

Þjófarnir stálu listaverkinu, sem heitir „Ballerína lagar balletskó“, þegar þeir fóru inn á heimili mannsins í borginni Limassol í gær. Að sögn lögreglunnar var verkið ekki tryggt.

Þjófnaður sem þessi er ekki algengur á Kýpur að því er AFP-fréttaveitan segir. Talið er að þetta sé verðmætasta málverk sem hafi  verið stolið á Miðjarðarhafseyjunni.

Þjófarnir stálu einnig ýmsum öðrum munum, m.a. gullúrum og óperu sjónaukum úr gulli. Úrin og sjónaukarnir eru metnir á um 157.000 evrur, sem samsvarar um 24 milljónum króna.

Lögreglan segist hafa handtekið 44 gamlan mann, sem er grískur Kýpverji, í tengslum við málið. Fleiri eru hins vegar taldir viðriðnir málið, m.a. Suður-Afríkumaður og Rússi. Talið er að þremenningarnir hafi þekkt fórnarlambið, sem er sjötugur grískur Kýpverji. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert