Konan komin til Osló

AFP

Norsk kona sem smitaðist af ebólu í Síerra Leóne er nú komin til Osló. Konan er í algjörri einangrun og var hún flutt frá Gardermoen-flugvellinum á Ullevål-háskólasjúkrahúsið í Osló í sérstökum sjúkrabíl.

Norska fréttastofan NRK segir frá þessu í dag. Konan er 32 ára gömul og starfaði í Síerra Leóne með samtökunum Læknum án landamæra. Þar smitaðist hún af ebólu og var hún greind með veiruna á sunnudaginn.

Konan mun leggjast inn á sérstaka deild á sjúkrahúsinu sem hönnuð er fyrir sjúklinga með alvarlega smitsjúkdóma.

Samkvæmt frétt NRK hafa verið gerðar miklar ráðstafanir á sjúkrahúsinu til þess að innlögn konunnar fari sem öruggast fram.

Aðstoðarforstjóri sjúkrahússins, Cathrine M. Lofthus, sagði í samtali við NRK að konan væri eini sjúklingurinn á smitdeildinni. Engin hætta væri á að aðrir sjúklingar sjúkrahússins kæmust í tæri við veiruna.

Fyrstu lyfin gegn ebólu koma til Noregs í dag og á morgun. Hefur NRK þetta eftir twittersíðu Steinars Madsens en hann er yfirmaður við lyfjastofnun Noregs.

„Ég hef ekki áhyggjur af því að ebóla muni dreifast um Noreg. Ég hef á tilfinningunni að starfsfólkið hér hafi stjórn á þessu,“ segir Britt Disch sem stödd var á sjúkrahúsinu er NRK bar að garði. Hún bætti við að sér þætti gífurlega sorglegt að konan hefði sýkst af veirunni.

Læknar án landamæra hafa ekki sagt til um hvernig konan smitaðist af ebólu en telja mögulegt að það hafi tengst klæðnaði sem hún var í við störf.

Heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur með sjúklinga með ebólu þarf að klæðast sérstökum varnargalla enda er ebóla bráðsmitandi. Að mati Lækna án landamæra getur þó skapast hætta er starfsfólkið klæðir sig úr gallanum en aðeins er hægt að vera í honum í 45 til 60 mínútur í einu vegna hita. Því fara starfsmennirnir í og úr gallanum reglulega og telur Anne Cecilie Kaltenborg, yfirmaður hjá Læknum án landamæra, að það geti skapað mikla hættu. 

„Okkar fólk í Síerra Leóne gerir allt sem það getur til þess að rannsaka hvernig hún sýktist. Við munum nú skoða hvort einhver mistök hafi hátt sér stað eða hvort aðgerðir okkar standast öryggisstaðla,“ sagði Kaltenborg.

Konan var flutt á sjúkrahús í Osló í dag. Hér …
Konan var flutt á sjúkrahús í Osló í dag. Hér sést sjúkrabíllinn og starfsmenn klæddir hlífðarbúnaði. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert