Stöðvuðu ólöglegar fóstureyðingar

Fóstureyðingar eru viðkvæmt mál í mörgum löndum Suður-Ameríku. Hér er …
Fóstureyðingar eru viðkvæmt mál í mörgum löndum Suður-Ameríku. Hér er fóstureyðingum mótmælt í Úrúgvæ. AFP

Lögregla í Rio de Janeiro í Brasilíu tilkynnti í dag að hún hefði stöðvað starfsemi fjölmargra lækna sem framkvæma ólöglegar fóstureyðingar. Ásamt læknunum standa lögfræðingar og lögreglumenn að starfseminni sem hefur breitt úr sér um alla borgina og í úthverfi hennar. 

Fóstureyðing er ólögleg í Brasilíu nema þegar konunni hefur verið nauðgað eða líf hennar í hættu vegna meðgöngunnar. Einnig er fóstureyðing leyfileg ef fóstrið er með heilaskaða.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kostar ólögleg fóstureyðing allt að 7.500 brasilíska reala eða um 377 þúsund íslenskar krónur. Eru þær framkvæmdar fram að sjötta mánuði meðgöngu.

Aðgerðirnar voru gerðar á heilsuspillandi stöðum án nauðsynlegs hreinlætis. Að sögn lögreglunnar voru sjúklingarnir iðulega í bráðri hættu við fóstureyðingarnar.

Starfsemin í borginni var rannsökuð í meira en 15 mánuði og var stærsta aðgerð lögreglu til þess að berjast gegn ólöglegum fóstureyðingum. Talið er að um 2.000 konur hafi leitað á stofurnar, en 80 þeirra hafa nú verið yfirheyrðar.

Í morgun hafði lögreglan handtekið 47 manns í aðgerðinni. Meðal þeirra var læknirinn Aloisio Soares Guimaraes, en hann er grunaður um að vera leiðtogi starfseminnar. Jafnframt voru fjórir lögreglumenn handteknir ásamt tveimur herlögreglumönnum og slökkviliðsmanni sem taldir eru tengjast starfseminni. Er lögreglan einnig með handtökuheimild á tólf aðra lögreglumenn, tíu lækna, einn mann sem þóttist vera læknir, þrjá lögfræðinga, hermann og slökkviliðsmann. 

Tvö dauðsföll sem tengjast ólöglegum fóstureyðingum hafa vakið mikla athygli í Brasilíu síðustu vikur.

Hin 27 ára gamla Jandira Magdalena dos Santos lést í lok ágúst er hún gekkst undir ólöglega fóstureyðingu í vesturhluta Rio. Lík hennar fannst brennt í bíl. Níu voru handteknir vegna dauða hennar.

Um mánuði síðar lést hin 32 ára gamla Elizangela Barbosa eftir fóstureyðingu í úthverfi Rio. Barbosa var komin fimm mánuði á leið er hún fór í aðgerðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert