Ebólusjóðir nánast tómir

Sjóðir Sameinuðu þjóðanna vegna ebólufaraldurins eru nánast tómir og er þar einungis að finna 100 þúsund Bandaríkjadali sem er einungis brot af því sem Sameinuðu þjóðirnar þurfa á að halda í baráttunni við faraldurinn skelfilega, segir í frétt New York Times í dag.

Peningarnir, sem komu frá Kólumbíu, eru einungis brot af þeim eina milljarði Bandaríkjadala, sem SÞ hafa áætlað að þurfi til þess að hefta útbreiðslu sjúkdómsins sem þegar hefur dregið 4.500 til dauða.

Framkvæmdastjóri SÞ, Ban Ki-moon, hefur sent út hjálparbeiðni um að þjóðir heims leggi sitt af mörkum í baráttunni við ebólu. En þetta er annað ákallið sem Ban sendir frá sér þar að lútandi því eins og fram kemur í NYT skilaði ákallið í september litlu, sem staða sjóðsins sýnir. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að hermenn yrðu sendir til Vestur-Afríku og þjóðvarðliðið sett í biðstöðu um að veita aðstoð í baráttunni heima við.

Hlutverk bandarísku hermannanna í Afríku er einkum falið í byggingu meðferðarstöðva og að veita heimamönnum fræðslu. 

Eins er hópur bandarískra lækna og hjúkrunarfræðinga að störfum í Afríku og fleiri eru á leiðinni þangað. 

Einhver ríki hafa bannað fólki sem kemur frá löndunum þremur, Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu, þar sem faraldurinn er verstur, að koma inn í viðkomandi land. Má þar nefna Jamaíku en ríkisstjórn landsins hefur sent frá sér tilkynningu þar að lútandi, samkvæmt frétt Guardian. Þar kemur fram að fleiri lönd eins og Kólumbía, Gvæjana og St. Lucia hafi einnig takmarkað ferðafrelsi til landsins.

Obama hefur verið undir miklum þrýstingi undanfarið um að setja einhvers konar bann á að fólk sem kemur frá löndunum þremur fái að koma til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert