Norska konan læknuð af ebólu

Það vakti heimsathygli þegar að fréttir bárust að norsk kona …
Það vakti heimsathygli þegar að fréttir bárust að norsk kona hafi smitast af ebólu. Hér sést sjúkrabíll koma með konuna á Háskólasjúkrahúsið í Osló 7. október. AFP

Norsk kona sem smitaðist af ebólu er hún starfaði með samtökunum Læknar án landamæra í Síerra Leóne hefur nú verið læknuð af sjúkdómnum.

Samtökin sögðu frá þessu í dag. 

„Við erum mjög glöð að heyra að samstarfskona okkar hefur nú verið læknuð,“ sagði Jonas Haagensen, talsmaður Lækna án landamæra í Noregi. 

Í yfirlýsingu frá Háskólasjúkrahúsinu í Osló kom fram að konan hefði nú verið útskrifuð af sérstakri einangrunardeild sjúkrahússins. Hún lagðist þar inn 7. október eftir að hafa komið til Noregs í sérstöku sjúkraflugi frá Síerra Leóne.

„Þetta eru frábærar fréttir,“ sagði Haagensen sem vildi ekki tjá sig meira um málið að svo stöddu. 

Lítið hefur verið gefið út um meðferð konunnar sem er 30 ára gömul. Fyrir viku kom þó fram að hún væri í stöðugu ástandi og á batavegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert