Skotvís vill fjölga veiðidögum

mbl.is/Sigurður Ægisson

Skotveiðifélag Íslands (Skotvís) segir það fagnaðarefni að að umhverfisráðherra hafi í fyrra gefið út fastan rjúpnaveiðitíma til þriggja ára. Félagið leggur hins vegar til að stunda megi veiðar að minnsta kosti í 18 daga, yfir sex vikna tímabil.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skotvís.

„Rökstuðningur SKOTVÍS byggir á þeirri staðreynd að á þeim árum sem veiðidögum fækkaði úr 69 í 9, hafi fjöldi leyfilegra veiðidaga engin áhrif á sóknina. Sá árangur sem náðst hefur við að ná niður heildarveiðinni megi rekja til sölubanns á rjúpnaafurðum, sem sett var á árið 2005 og hefur verið í gildi síðan.

Þó svo að vel megi rökstyðja að fjöldi leyfilegra veiðidaga séu fleirri en 18 dagar og lengur en 6 vikur, telur SKOTVÍS að stíga eigi varlega til jarðar við fjölgun daga umfram þessar tillögur. Með þessu móti ætti að skapast nægilegt svigrúm fyrir veiðimenn, stofnanir og fræðimenn til að rannsaka áhrif annarra þátta en veiða,“ segir í tilkynningunni.

Félagið segir ennfremur tímabært, að huga að þessum tillögum, þ.e. að hægt verði að setja dagaumræðuna á ís og verja tíma og fjármunum í önnur mikilvægari málefni og afla meiri þekkingar um aðra þætti en veiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert