Fengu reikning upp á 123 milljónir

Það er alls ekki ókeypis að fæða barn í Bandaríkjunum. …
Það er alls ekki ókeypis að fæða barn í Bandaríkjunum. Mynd úr safni. Ásdís Ásgeirsdóttir

Kanadískt par þarf líklega að lýsa yfir gjaldþroti eftir að það fékk sjúkrahúsreikning upp á rúmlega 123 milljónir íslenskra króna eftir að dóttir þeirra fæddist í Bandaríkjunum. The Independent segir frá þessu.

Þau Darren Kimmel og Jennifer Huculak fóru í frí til Hawaii þegar að Huculak var komin sex mánuði á leið. Hún segist hafa keypt sér ferðatryggingu hjá tryggingafélaginu Blue Cross og leyfi frá lækni til að fara.

Hún missti vatnið á öðrum degi ferðarinnar og neyddist til að vera næstu sex vikurnar á sjúkrahúsi í Hawaii undir eftirliti. Dóttir parsins, Reece fæddist níu vikum fyrir tímann og var í næstum því tvo mánuði á vökudeild. 

Huculak taldi að hún væri tryggð fyrir sjúkrahúslegunni en nýlega fékk parið bréf frá tryggingafélaginu þar sem fram kom að félagið sæi sér ekki skylt að greiða reikningana. 

„Blue Cross segir að þar sem ég var með blöðrubólgu á fjórða mánuði meðgöngu og fékk í kjölfarið blæðingar myndi félagið ekki greiða fyrir fæðinguna,“ sagði Huculak í samtali við CBS News. 

Tryggingafélagið heldur því fram að meðganga konunnar hafi verið áhættumeðganga. Huculak neitar því. Parið íhugar nú að lýsa yfir gjaldþroti vegna reikningsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert