100 ára sá hafið í fyrsta skipti

Skip á siglingu í Indlandshafi.
Skip á siglingu í Indlandshafi. AFP

Ruby Holt tók sig til og sá hafið í fyrsta skipti á dögunum, aðeins nokkrum vikum áður en hún verður 101 árs. Hún hefur eytt stærstum hluta ævi sinnar í sveitum Tennessee að týna bómull. og aldrei haft tíma eða peninga til þess að fara á strönd. BBC segir frá þessu. 

„Ég hef heyrt fólk tala um hafið og hversu yndislegt það er og vildi sjá það, en ég hef aldrei haft tækifæri til þess,“ sagði Holt en henni var nýlega boðið í ferð að Mexíkóflóa. 

Þjónustumiðstöðin þar sem Holt býr og góðgerðarsamtökin Wish of a Lifetime greiddu allan ferðakostnað konunnar. Hún sagðist aldrei hafa séð neitt eins stórt og hafið en sagðist þó vera kalt í nóvemberveðrinu. 

Mark Davis, framkvæmdarstjóri þjónustumiðstöðvarinnar þar sem Holt býr segir í samtali við BBC að tveir starfsmenn stöðvarinnar hafi fyllt út umsókn fyrir Holt hjá góðgerðarsamtökunum eftir að hún sagði þeim að hún vildi sjá hafið. 

Holt á fjögur börn og segist hafa alltaf verið of upptekin við störf á bóndabæ og bolaverksmiðju til þess að ferðast. 

Til þess að sjá hafið ferðaðist hún 650 kílómetra til Alabama. Hún hafði aldrei farið jafn langt frá heimili sínu í Giles sýslu. Hún hafði reyndar aðeins einu sinni áður yfirgefið Tennessee.

Holt fékk lánaðan rafmagnshjólastóll sérstaklega til þess að ferðast í sandi og með aðstoð gat hún farið með fæturna ofan í vatnið.

„Það er ekkert svona í Giles sýslu,“ sagði hún hrifin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert