Nakinn maður réðst á eldri borgara

Farþegar í röð á JFK flugvell í New York. Myndin …
Farþegar í röð á JFK flugvell í New York. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Maður á þrítugsaldri réðst á 84 ára gamlan mann á Logan-flugvelli í Boston í Bandaríkjunum í gær. Áður hafði maðurinn farið inn á salernisaðstöðu fyrir konur, klætt sig úr öllum fötunum og klifrað upp í loftræstikerfi. Loftið þoldi ekki þyngd mannsins sem varð til þess að hann féll niður úr loftræstikerfinu og hræddi konu sem var þar inni á salerninu.

Samkvæmt frétt Sky News réðst maðurinn síðan á 84 ára gamlan mann, beit hann í eyrað og reyndi að kæfa hann með göngustaf. Maðurinn slasaðist alvarlega og er nú á sjúkrahúsi. 

Árásarmaðurinn réðst síðan á lögreglumenn sem komu á staðinn og reyndu að handtaka hann. Einn lögreglumaður slasaðist. 

Ekki hefur fundist möguleg ástæða fyrir hegðun mannsins en hann er 26 ára gamall. Hann var handtekinn og verður líklega ákærður fyrir meðal annars tilraun til manndráps, líkamsárás og eignaspjöll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert