Jafnrétti stríðir gegn mannlegu eðli

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Forseti Tyrklands segir að konur séu ekki jafnar körlum. Í Íslam sé staða þeirra skýr: Móðurhlutverkið. Forsetinn Recep Tayyip Erdogan réðst gegn femínistum í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu í Istanbúl. Sagði hann m.a. í ræðu sinni að líffræðilegur munur á körlum og konum gerði það að verkum að þær gætu ekki sinnt sömu stöðum og karlar í samfélaginu. 

Umræðuefni ráðstefnunnar er jafnrétti og meðal áhorfenda var dóttir forsetans, Sumeyye.

„Sumir geta skilið þetta, aðrir ekki,“ sagði forsetinn. „Þú getur ekki útskýrt þetta fyrir femínistum því að þeir viðurkenna ekki móðurhlutverkið.“

Þá sagði hann: „Ég kyssti fætur móður minnar því að þeir ilmuðu eins og paradís. Hún brosti stundum og grét stundum. Móðurhlutverkið er einstakt.“

Hann hélt áfram og sagði að konur og karlar gætu ekki verið jöfn „því það gengur gegn mannlegu eðli“.

Hann segir að persónuleiki, venjur og útlit kvenna sé ólíkt karla. „Þú getur ekki sett móður með barn á brjósti á sama stað og karla.“

Forsetinn sagði að ekki væri hægt að láta konur vinna öll þau störf sem karlar ynnu. „Þú getur ekki sagt þeim að fara út að grafa í jörðinni. Það gengur gegn viðkvæmu eðli þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert