Játaði morð á 14 ára dreng

Breck Bednar.
Breck Bednar. Ljósmynd/Lögreglan í Essex

Ungur tölvuverkfræðingur frá Bretlandi hefur játað að hafa myrt 14 ára gamlan dreng í febrúar sl. eftir að hafa kynnst honum á netinu. Drengurinn, Breck Bednar, fannst látinn í íbúð í Essex með stungusár á hálsi.

Ungi maðurinn heitir Lewis Daynes og er 19 ára gamall. Hann hafði lýst sig saklausan af morðinu þann 12. september sl., en þar sem sterkur grunur beindist enn að honum var hann færður fyrir dóm á ný í dag þar sem hann játaði á sig morðið.

Saksóknari í málinu sagði hvöt Daynes fyrir morðinu hafa verið af kynferðislegum og sadískum toga.

Talið er að Bednar hafi kynnst Daynes í gegnum tölvuleik á netinu. Kvöldið sem hann var myrtur hafði Bednar sagt foreldrum sínum að hann ætlaði að gista hjá vini sínum. Hann fór þá heim til Daynes þar sem hann var myrtur.

Daynes á yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi, en dómurinn yfir honum verður kveðinn upp þann 12. janúar nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert