Vill flýta kosningum í Katalóníu

Artur Mas, forseti heimastjórnar Katalóníu, eftir ræðuna sem hann hélt …
Artur Mas, forseti heimastjórnar Katalóníu, eftir ræðuna sem hann hélt í Barcelona í dag. AFP

Kosningabandalag flokka sem vilja sjálfstæði Katalóníu frá Spáni hefði umboð til að koma af stað ferli sem myndi enda með stofnun katalónsks ríkis. Þetta er mat Arturs Mas, forseta héraðsstjórnar Katalóníu, sem vill flýta kosningum í sjálfstjórnarhéraðinu.

Hugmynd Mas er að þeir flokkar sem aðhyllast sjálfstæði bjóði fram sameiginlegan lista. Hann telur að þetta sé eina leiðin fyrir Katalóníumenn að láta rödd sína heyrast eftir táknræna atkvæðagreiðslu sem fór fram í sjálfstjórnarhéraðinu 9. nóvember. Ríkisstjórn Spánar var andsnúinn atkvæðagreiðslunni.

„Stundin er runnin upp til að nota eina tækið sem við eigum eftir til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Mas í ræðu í Barcelona í dag.

Hann nefndi ekki ákveðna dagsetningu fyrir snemmbúnar kosningar en þær næstu eiga að óbreyttu að fara fram árið 2016.

„Úrslitin þurfa að vera sterk, skýr og mjög skiljanleg svo það verði engar deilur eftir á um hvað var kosið,“ sagði Mas.

Ríkissaksóknarar Spánar ákærðu Mas og tvo aðra háttsetta meðlimi katalónsku heimastjórnarinnar fyrir að hafa látið atkvæðagreiðsluna um sjálfstæði fara fram þrátt fyrir að stjórnlagadómstóll hafi fyrirskipað að henni skyldi frestað.

Katalónsk yfirvöld segja að 2,3 milljónir héraðsbúa hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslunni sem var skipulögð af sjálfboðaliðum. Það var yfir þriðjungur kosningabærra íbúa í héraðinu. Um það bil 80% þeirra sem tóku þátt sögðu að þeir vildu að Katalónía yrði sjálfstætt ríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert