Ummæli lögreglumannsins „fáránleg“

Lögreglumenn að störfum við mótmæli í Ferguson.
Lögreglumenn að störfum við mótmæli í Ferguson. AFP

Foreldrar Michael Brown, sem var skotinn til bana af lögregluþjóninum Darren Wilson í ágúst segja að ummæli lögreglumannsins um samskipti hans og Brown séu „ótrúleg“ og „strái salti í sárin.“

Mikil mótmæli hafa staðið yfir í ýmsum borgum Bandaríkjanna eftir að kviðdómur úrskurðaði að Wilson skyldi ekki vera ákærður í málinu. 

Hann kom fram í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi þar sem hann óttaðist um líf sitt þegar hann reyndi að eiga við Brown og lýsti honum sem reiðum „djöfli“ sem hefði ráðist á hann og reynt að ná byssu hans. 

Móðir Brown, Lesley McSpadden, kom fram í viðtali á NBC í morgun. Þar sagði hún að ummæli Wilson væru mjög ruddaleg. 

„Ég trúi ekki einu orði sem hann segir. Ég þekki son minn of vel. Hann myndi aldrei gera neitt í líkingu við þetta. Hann myndi aldrei ögra einhverjum til þess að gera eitthvað við hann og hann myndi aldrei skaða neinn. Ég trúi ekki orði sem Wilson segir,“ sagði hún í öðru viðtali á CBS.

„Sonur okkar á sér enga sögu þegar það kemur að ofbeldi,“ bætti hún við. 

Faðir Brown, Michael Brown eldri sagði í viðtali á NBC að honum fyndist útgáfa lögreglumannsins að atvikinu „fáránleg.“

„Í fyrsta lagi, sonur minn, hann virti lögregluna,“ sagði hann. „Í öðru lagi, hver með réttu ráði myndi ráðast á lögreglu með byssu? Það hljómar fáránlega.“

Lögfræðingur hjónanna sagði einnig að vitnisburður Wilson væri ekki réttur. 

„Þegar að litað fólk er myrt, er reynt að gera þau að djöflum og spila með staðalímyndir og lögreglumaðurinn sem drap börnin okkar settur á stall,“ sagði lögfræðingurinn, Benjamin Crump. „Það bara er ekki rétt og við þurfum að laga kerfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert