Lykketoft verður forseti allsherjarþings SÞ

Mogens Lykketoft
Mogens Lykketoft Sverrir Vilhelmsson

Mogens Lykketoft, forseti danska þingsins, verður forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og tekur við við embættinu í september á næsta ári. Hann er fyrsti Daninn til þess að gegna þessu embætti í sjötíu ára sögu þingsins.

Lykketoft, sem var áður formaður Jafnaðarmannaflokksins, greindi frá þessu í gærkvöldi og segist hann þetta spennandi starf en um leið flókið. Hann tekur við af Úgandamanninum Sam Kutesa.

Lykketoft segir að Sameinuðu þjóðirnar séu mikilvægur vettvangur fyrir þjóðir heims, ekki síst litlar þjóðir. Forseti allsherjarþingsins gegnir starfinu í eitt ár og skiptast álfur heims því á milli sín. Ríkisstjórn Danmerkur hefur unnið að því síðan í mars 2013 að Lykketoft, sem er 68 ára gamall, fengi starfið en hann hefur setið á þingi síðan 1981 og gegnt ýmsum lykil störfum, svo sem ráðherra fjármála, utanríkismála og skattamála. 

<a href="http://www.politiko.dk/nyheder/mogens-lykketoft-sikrer-sig-toppost-i-fn" target="_blank">Frétt Berlingske</a>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert