Ró að færast yfir Ferguson

Ró er að færast yfir bæinn Ferguson í úthverfi St Louis eftir tveggja daga mótmæli í kjölfar niðurstöðu kviðdóms um að ákæra ekki hvítan lögreglumann fyrir að skjóta 18 ára svartan ungling til bana í ágúst sl.

Nokkrir tugir mótmælenda mættu fyrir utan lögreglustöðina í Ferguson í gærkvöldi og létu hvorki regn né slyddu aftra sér. Kallaði fólkið: Þetta er lýðræðið í hnotskurn. Óeirðalögregla fylgist með mótmælendum auk þjóðvarðliða en ekki hefur enn komið til átaka.

Mótmælt var víða um Bandaríkin á mánudagskvöldið í kjölfar niðurstöðu kviðdóms og skarst í odda á milli mótmælenda og lögreglu í Ferguson þar sem kveikt var í bílum og byggingum og verslanir rændar. Strax á þriðjudag var meiri ró komin yfir mótmælin og í gærkvöldi og nótt virðist sem þau fari friðsamlega fram. 

Mál Browns hefur vakið mikla umræðu í Bandaríkjunum. Vísað hefur verið til þess að George Zimmerman var sýknaður fyrir að skjóta fyrir tveimur árum 17 ára óvopnaðan ungling, Trayvon Martin, á götu í Flórída. Um helgina var 12 ára svartur drengur skotinn til bana í almenningsgarði í Cleveland í Ohio vegna þess að hann var með leikfangabyssu, sem líktist skammbyssu, á lofti. Hefur það mál verið borið saman við mál Browns.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði þegar tilkynnt var að Wilson yrði ekki ákærður að ástandið í Ferguson endurspeglaði stærri vanda Bandaríkjanna allra: „Það er djúpstætt vantraust á milli löggæslunnar og samfélaga litaðra.“ Um leið kvaðst hann enga samúð hafa með þeim, sem eyðilegðu umhverfi sitt. „Þetta eru glæpsamlegir verknaðir,“ sagði Obama og bætti við að hann skildi tilfinningar fólks, en hefði aldrei upplifað að lög hefðu náð fram að ganga „út af því að kveikt var í bíl“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert