Segja einkavæðinguna svik

Lestarstöð. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki …
Lestarstöð. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. AFP

Samvinnufélagið Inter City Railways hefur verið veitt einkaleyfi á rekstri lestarleiðarinnar milli Lundúna og Edinborgar. Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti þess að koma rekstrinum í hönd einkaaðila á ný, en Austurstrandarleiðin hefur verið á forræði ríkisins frá 2009.

Inter City Railways er sameiginlegt félag Stagecoach og Virgin Trains og tekur leiðina yfir í mars á næsta ári. Einkaleyfið gildir til átta ára og kostar félagið 3,3 milljarða punda, sem renna í ríkissjóð.

Richard Branson, eigandi Virgin, eignast 10% hlut í nýja rekstrinum.

Austurstrandarleiðin, East Coast Main Line, hefur verið í ríkisrekstri frá 2009, þegar rekstraraðili leiðarinnar var sviptur einkaleyfinu. Verkamannaflokkurinn, og ýmis stéttarfélög, hafa talað fyrir því að reksturinn verði áfram á höndum hins opinbera, og m.a. vísað til þess að hann hafi skilað dágóðum skildingi í ríkiskassann, meira en milljarði punda sl. fimm ár.

Stjórnvöld segja samninginn við Inter City Railways hins vegar frábæran, bæði fyrir farþega og starfsfólk, en hann muni fela í sér nýjar lestir, aukin sætafjölda og meiri þjónustu.

Mick Cash, framkvæmdastjóri stéttarfélagsins RMT, segir endur-einkavæðingu leiðarinnar þjóðarskömm og svik, og Michael Dugher, talsmaður Verkamannaflokksins í samgöngumálum, segir skattgreiðendur og lestarnotendur hafa verið vélaða.

Stagecoach og Virgin Trains reka fyrir Vesturstrandarleiðina, sem gengur frá Lundúnum til Glasgow um Birmingham og Manchester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert