Frækileg björgun drengja úr snjóskafli

Snjóplógur að störfum í New York.
Snjóplógur að störfum í New York. AFP

Tveir ungir drengir mega þakka fyrir að vera á lífi eftir að hafa grafist undir snjó skammt frá New York. Drengirnir eru níu og sjö ára og voru að byggja sér virki úr snjó á bílastæði í NewBurgh miðvikudagskvöld er snjóplógur ók hjá. Snjó rigndi yfir drengina og festust þeir undir farginu í nokkrar klukkustundir.

Atvikið átti sér stað í bænum Newburgh, skammt frá New York, en þar snjóaði mikið á miðvikudag.

Lögreglan segir að ökumaður snjóplógsins hafi ekki haft hugmynd um að það væru drengir að leik handan við snjóskaflinn sem hann var að blása af bílastæðinu.

Foreldrar drengjanna vissu heldur ekki að þeir væru að leika sér á bílaplaninu og því var þeirra ekki saknað fyrr en nokkrum klukkutímum eftir atvikið, segir í frétt CNN um málið. Er þeir komu ekki heim um kvöldið var farið að leita að þeim. Níu lögreglumenn og lögregluhundur tóku þátt í leitinni fram á nótt. 

Lögreglumaður fann að lokum skóflu standa upp úr snjóskaflinum og hóf að grafa með henni þar til hann sá lítið stígvél. 

„Lögreglumenn, fjölskylda drengjanna og vegfarendur komu til aðstoðar við að grafa drengina upp,“ segir lögreglan. Grafið var bæði með skóflum og höndunum. Rúmlega 2 um nóttina, aðfararnótt þakkagjörðarhátíðarinnar, tókst loks að grafa drengina út úr skaflinum.

„Sem betur fer eru þeir á lífi og heilsast vel,“ segir lögreglumaður í samtali við CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert