Kaupæði á svörtum föstudegi

Þrátt fyrir að enn sé nótt í Bandaríkjunum þá eru viðskiptavinir mættir í röðina fyrir utan verslanir landsins enda á að gera góð kaup í dag - á svörtum föstudegi sem er annasamasti dagur ársins í bandarískum verslunum.

Í huga flestra Bandaríkjamanna er það sjálfsagður hluti af þakkargjörðarhátíðinni að gera góð kaup á svörtum föstudegi líkt og það er sjálfsagt að borða kalkún og graskersböku á þakkargjörðarhátíðinni sjálfri.

Talið er að tugir milljarða Bandaríkjadala muni skipta um eigendur í Bandaríkjunum á þessari fjögurra daga hátíð sem hófst í gær. Verslunarfólk hafði lítinn tíma til þess að sitja með fjölskyldunni og snæða í gær og á mörgum heimilum starfsmanna í verslunum var heimilisfólkið vart búið að kyngja síðasta bitanum þegar lagt var af stað í vinnuna. Allt verður að vera tilbúið áður en dyr verslana verða opnaðar í dag.

Fjölmargar verslanir verða opnar langt fram á kvöld og er hætt við að fátt verði um fína drætti á þeim tíma í mörgum búðum. Þess vegna mæta margir snemma í röðina og meðal þeirra eru Henri Brown, 17 ára og Will bróðir hans sem er 15 ára. Þeir voru mættir í Leesburg Corner, verslunarmiðstöð í Virgina strax í gærkvöldi enda hófst útsalan þar strax í gær.

Bræðurnir voru sáttir þegar AFP fréttastofan náði tali af þeim enda höfðu þeir gert góð kaup í fataverslunum. Henri hélt hins vegar að það væri rólegra í  búðunum nú en undanfarin ár en áralöng hefð er fyrir svörtum föstudegi (black friday) en nafnið kemur frá því að það er talað um að á þessum degi fari bókhald kaupmannsins úr rauðum tölum (mínus) yfir í svartar (plús) og rekstri ársins sé bjargað.

Ekki eru allir sáttir við að kaupdagurinn sé farinn að færast fram til fimmtudags enda þykir flestum nóg um. Starfsfólk verslana þarf oft að standa í rúma 20 tíma á þessum degi við að aðstoða viðskiptavini og vill oft gleymast að það á líka fjölskyldur sem það hefði áhuga á að eyða þakkargjörðarhátíðinni með í stað kaupóðra viðskiptavina.

Henri hefur hins vegar engar áhyggjur af starfsfólkinu þegar AFP spyr hann. „Það þarf ekki að vinna. Ég held að það sé hér fyrir peningana. Það er ekki neytt til þess að vera hér,“ segir Henri og bætir við„Svo getur verið að það hafi gaman af látunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert