Sorg ríkir í New York

Margir hafa minnst tveggja lögreglumanna sem voru skotnir til bana við skyldustörf í New York í gær. Blóm og kerti hafa verið lögð við staðinn þar sem mennirnir létust.

Lögreglumennirnir hétu Wenjian Liu, sem var 32 ára, og Rafael Ramos, sem var fertugur. Þeir sátu í lögreglubifreið þegar vopnaður maður skaut þá í gegnum rúðu bílsins um hábjartan dag í Brooklyn. Atburðurinn hefur vakið mikinn óhug í New York. 

Lögreglan segir að morðinginn heiti Ismaaiyl Brinsley, en hann er 28 ára gamall. Hann er sagður liðsmaður gengis sem gengur undir nafninu „Black Guerilla Family“. Hann lagði á flótta eftir árásina, inn í jarðlestarstöð þar sem hann skaut sig í höfuðið á lestarpalli. 

Bill Bratton, lögreglustjóri New York-borgar, segir að lögreglumennirnir hafi aldrei fengið tækifæri til að grípa til vopna. Þeir hafi jafnvel aldrei náð að sjá árásarmanninn. 

Nokkrum klukkustundum áður en Brinsley lét til skarar skríða birti hann mynd af skammbyssu á Instagram og skrifaði að hann ætlaði að „setja vængi á tvö svín í dag“, sem þýðir að hann ætlaði að myrða lögreglumenn. 

„Þeir taka einn af okkur. Við skulum taka tvo frá þeim,“ segir í athugasemd sem talið er að Brinsley hafi skrifað við myndina. En hann vísaði til þess að lögreglumenn hafi myrt óvopnaða þeldökka menn.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, og Bratton voru viðstaddir messu sem fór fram í dómkirku Heilags Patreks í borginni. 

Samskipti lögreglunnar við Blasio hafa verið mjög stirð og atvik gærdagsins er ekki til að bæta samskiptin. Margir lögreglumenn sneru baki í borgarstjórann er þeir stóð við sjúkrahúsið þangað sem lögreglumennirnir voru fluttir í gær. 

Lögreglumenn saka Blasio um að hafa ekki veitt þeim stuðning í þeim mótmælum sem hafa brotist út á undanförnum vikum þar sem ofbeldi sem lögreglan hefur beitt þeldökka íbúa hefur verið mótmælt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert