Frakkar hvattir til sérstakrar árvekni

AFP

Forseti Frakklands, François Hollande, hvetur Frakka til sérstakrar árvekni eftir tvær árásir um helgina þar sem árásarmennirnir kölluðu „Guð er almáttugur“ á arabísku áður en þeir réðust til atlögu.

Hollande hvatti Frakka til þess að missa ekki stjórn á sér þrátt fyrir árásirnar en upplýsingafulltrúi forsetaembættisins ræddi við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Unnið er að rannsókn á því hvort einhver tengsl séu á milli árasanna önnur en þau að árásarmennirnir kölluðu „Allahu Akbar”.

Á laugardag skaut lögreglan Frakka, sem hafði snúið til íslam, til bana eftir að hann réðst á lögreglumann vopnaður hnífi í bænum Joue-les-Tours. Í gær ók maður inn í hóp fólks á göngu í borginni Dijon. 11 slösuðust þar af tveir alvarlega. 

Í báðum tilvikum bendir allt til þess að um „einmana úlfa“ sé að ræða (hryðjuverkamenn sem starfa einir) en stjórnvöld hvetja fólk til þess að taka þessu með ró og draga ekki neinar ályktanir þar að lútandi. Ekkert hefur enn fundist sem tengir mennina tvo saman. Eins sé of snemmt að segja að um hryðjuverk sé að ræða.

Heimildir herma að ökumaðurinn í Dijon hafi dvalið langdvölum á geðdeild og sé ekki í góðu andlegu jafnvægi. Hann hafi oft komist í kast við lögin áður. 

Árásarmaðurinn á laugardag, Bertrand Nzohabonayo, sem er ættaður frá Búrúndi, hefur einnig ítrekað komist í kast við lögin en hann var samt sem áður ekki undir sérstöku eftirliti lögreglu. Bróðir hans er hins vegar þekktur fyrir öfgaskoðanir og hefur rætt um að fara til Sýrlands til þess að berjast fyrir hryðjuverkahópa sem þar starfa.

Upplýsingafulltrúi Hollande, Bernard Cazeneuve, sagði í dag að allt benti til þess að Nzohabonayo hafi verið öfgafullur og ekki er langt síðan hann setti mynd af fána Ríki íslams á Facebooksíðu sína. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert