Veitti 197 föngum sakaruppgjöf

Peter Mutharika ásamt Madonnu í síðasta mánuði.
Peter Mutharika ásamt Madonnu í síðasta mánuði. AFP

Forseti Malaví, Peter Mutharika, veitti 197 föngum sakaruppgjöf í dag. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti landsins var það gert vegna jólanna. 

„Náðun fanganna 197 er tákn um fyrirgefningu er landið heldur upp á jól og áramót,“ kom fram í yfirlýsingu. 

Fangarnir höfðu allir setið að minnsta kosti hálfan dóm sinn og höfðu hagað sér vel innan veggja fangelsa. Jafnframt höfðu þeir ekki verið dæmdir fyrir alvarleg brot. 

Þetta er í annað skiptið sem Mutharika veitir föngum sakaruppgjöf síðan hann var kosinn í maí. Í júlí fyrirskipaði hann um náðun 403 fanga til þess að fagna 50 ára sjálfstæði landsins. 

Í Malaví eru 34 fangelsi og eru þar um 12 þúsund fangar. Fangelsin berjast nú við alvarlegt plássleysi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert