„Honum hefur ekki verið gleymt“

F-16 orrustuþota.
F-16 orrustuþota. AFP

Jórdönsk stjórnvöld lýstu því yfir í dag að allt sem í þeirra valdi stæði yrði gert til þess að bjarga jórdönskum orrustuflugmanni úr höndum liðsmanna hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. F-16 orrustuþota sem flugmaðurinn flaug hrapaði skammt frá borginni Raqa í norðurhluta Sýrlands í gær og var hann í kjölfarið handsamaður af Ríki íslams.

Deildar meiningar eru um það hvort orrustuþotan var skotin niður eða ekki. Bandaríkjamenn hafa hafnað fullyrðingum um að þotan hafi verið skotin niður af liðsmönnum Ríkis íslams. Þetta er í fyrsta sinn sem orrustuflugmaður sem tekið hefur þátt í aðgerðum gegn hryðjuverkasamtökunum er handsamaður af liðsmunnum þeirra. Ríki íslams hefur reynt að nýta sér málið til hins ítrasta í áróðursskyni segir í frétt AFP.

„Jórdönsk stjórnvöld reyna nú með öllum ráðum að leysa flugmanninn úr haldi. Við erum sannfærð um að okkar hugrakki flugmaður verði frelsaður. Honum hefur ekki verið gleymt,“ sagði í dag í jórdanska ríkisdagblaðinu Al-Rai.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert