Mannfall í árás í París

Margir slösuðust í árásinni.
Margir slösuðust í árásinni. AFP

Að minnsta kosti þrír menn réðust inn á skrifstofur franska tímaritsins Charlie Hebdo í París í morgun. Forseti Frakklands staðfestir að að minnsta kosti 12 hafi fallið í árásinni. Um tíu eru særðir, þar af fjórir alvarlega, m.a. einn lögreglumaður. Á vef Le Parisien kemur fram að mennirnir hafi drepið tíu inni á skrifstofunni en einn fyrir utan hana. Eitthvað af starfsfólki Charlie Hebdo flúði upp á þak hússins.

Árásarmennirnir sáust flýja af vettvangi í bifreið sem þeir rændu. Þeirra er nú leitað.

Í frétt BBC kemur fram að árásarmennirnir hafi skotið af Kalashnikov-rifflum inni í byggingunni. „Tveir menn með svarta hettu á höfði fóru inn í bygginguna með Kalashnikov-riffla. Skömmu síðar heyrðum við mörg skot,“ segir sjónarvottur við BBC. Í frétt AFP-fréttastofunnar kemur fram að mennirnir hafi fyrst skotið á öryggisverði í byggingunni og haldið svo inn á skrifstofur blaðsins.

Tímaritið hefur valdið miklum deilum, m.a. með því að gera grín að fréttum og málefnum líðandi stundar. 

Charlie Hebdo er franskt vikublað þar sem háðsádeila er í fyrirrúmi, en blaðið kemur ávallt út á miðvikudögum. Birtar eru skopmyndir, fréttir, ritdeilur og spaug. Blaðið er vinstrisinnað, and-trúarlegt og þykir óheflað, að því er fram kemur á Wikipediu. Blaðið hefur m.a. birt greinar þar sem fjallað hefur verið um öfgasinna, trúarmál og stjórnmál.

Það kom fyrst út árið 1969 og var gefið út til ársins 1989. Það var hins vegar endurreist árið 1992. Ritstjóri blaðsins er Stephane Charbonnier, betur þekktur sem Charb.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem árás er gerð á skrifstofur tímaritsins. Árið 2011, í kjölfar þess að blaðið birti skopteikningu af Múhameð spámanni, var eldsprengjum varpað á skrifstofurnar.

Í morgun setti tímaritið m.a. skopteikningu á Twitter af leiðtoga Ríkis íslams, Abu Bakr al-Baghdadi.

Í september árið 2012 birti blaðið skopmyndir af nöktum Múhameð spámanni, á meðan miklar deilur og mótmæli fóru víða fram vegna kvikmyndarinnar Innocence of Muslims. 

Slökkviliðsmenn flytja slasaða út úr byggingu Charlie Hebdo í París.
Slökkviliðsmenn flytja slasaða út úr byggingu Charlie Hebdo í París. AFP
Vopnaðir menn hófu skothríð á skrifstofum tímaritsins Charlie Hebdo í …
Vopnaðir menn hófu skothríð á skrifstofum tímaritsins Charlie Hebdo í París. AFP
Brotinn gluggi eftir skothríðina í morgun.
Brotinn gluggi eftir skothríðina í morgun. AFP
Slökkviliðs- og lögreglumenn fyrir framan höfuðstöðvar Charlie Hebdo í París.
Slökkviliðs- og lögreglumenn fyrir framan höfuðstöðvar Charlie Hebdo í París. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert