Uppgjöf Houellebecq hristir upp í umræðunni

Ný bók franska rithöfundarins Michel Houellebecq þar sem sögusviðið er Frakkland árið 2022 undir stjórn íslamista kom í bókahillur í Frakklandi í dag. Talið er að bókin muni kynda undir angist þeirra Evrópubúa sem óttast múslímska innflytjendur.

Bókin, Soumission (Uppgjöf), verður án efa metsölubók í heimalandinu líkt og flestar bækur Michel Houellebecq en hann er þekktur út um allan heim fyrir skrif sín um það sem gæti verið í vændum í nútímasamfélagi. Houellebecq kom til Íslands í október 2012 og las upp úr bók sinni Kortið og landið sem þá var nýkomin út í íslenskri þýðingu.

Viðfangsefni nýju bókarinnar er ný ríkisstjórn undir forsæti íslamista þar sem hinir hefðbundnu flokkar fara hallloka fyrir öfgaflokkum, Front National og nýjum flokki sem minnir helst á Bræðralag múslíma í Egyptalandi. En þrátt fyrir að um ímyndun sé að ræða þá minnir þetta mjög á það sem kraumar undir niðri í mörgum Evrópulöndum. Ríkjum eins og Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Svíþjóð og fleiri löndum þar sem útlendingahatur hefur aukist, einkum í garð múslíma.

Flestir þeirra eru að flýja átök í heimalöndum sínum, svo sem Sýrlandi, Súdan og fleiri löndum. Á sama tíma á evrópskt efnahagslíf undir högg að sækja og óttast ýmsir að menningarheimur Evrópu eigi eftir að verða undir í baráttunni við menningu þeirra sem þangað flytja. 

Litlu skiptir að Houellebecq sjálfur hafi tekið það fram í viðtali við Paris Review að bókin eigi ekki við rök að styðjast og litlar líkur séu á að þessi sviðsmynd eigi eftir að koma upp. Því orðræðan er hafin - er þetta sem er í vændum í Frakklandi?

François Hollande, forseti Frakklands, sagði í viðtali við frönsku útvarpsstöðina Inter á mánudag að hann muni lesa bókina þar sem hún skapi umræður. Hann benti hins vegar á að bókin væri skáldskapur og hugmyndin um uppgjöf þess sem fyrir er fyrir því nýja sé gömul hugmynd.

Aðalritstjóri Liberation, Laurent Joffrin, segir að útgáfa bókarinnar muni marka upphafið að komu öfgahægriflokka inn í bókmenntirnar.

Formaður Front National þjóðernisflokksins, Marine Le Pen, segir aftur á móti að þrátt fyrir að bókin sé skáldskapur þá sýni hún þann raunveruleika sem geti blasið við einn góðan veðurdag.

Íslamski Svarti skóli Parísar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka