Teikning af Múhameð í næsta blaði

Blaðið verður gefið út í milljón eintökum á miðvikudag og …
Blaðið verður gefið út í milljón eintökum á miðvikudag og þýtt á sextán tungumál. AFP

Næsta tölublað Charlie Hebdo, sem kemur út í milljón eintökum á miðvikudag, mun „náttúrlega“ innihalda myndir af spámanninum Múhameð. Þar verður einnig deilt á stjórnmálamenn og trúarbrögð.

Þetta segir Richard Malka, lögfræðingur blaðsins, í samtali við The Telegraph. Níu blaðamenn og skopmyndateiknarar blaðsins féllu í árás á það síðastliðinn miðvikudag. Ritstjóri blaðsins var þar á meðal.

Reglulega hafa verið birtar skopmyndir af spámanninum í blaðinu. „Við munum ekki gefast upp, annars hefði þetta allt ekki haft neina merkingu,“ sagði Malka í samtali við útvarpsstöð í Frakklandi í dag. „Við gerum grín að okkur sjálfum, stjórnmálamönnum og trúarbrögðum,“ sagði Malka einnig.  

Blaðið er unnið á skrifstofu franska blaðsins Libération. Margir lögreglumenn gæta skrifstofunnar vegna árása liðinnar viku. Malka var einnig spurður hvernig starfsfólki blaðsins gengi að einbeita sér að vinnslu blaðsins eftir árásina.

Sagði hann að staðan væri vissulega flókin. Útfarir fólksins munu fara fram í þessari viku en gert er ráð fyrir að blaðið verði tilbúið í kvöld.

Luz starfar fyrir Charlie Hebdo. Hann segir að vinnan við tölublaðið hafi haldið vitinu í hópnum. „Við fáum nú færri martraðir. Við erum að reyna að setja blaðið saman og finna ró og innblástur við það,“ segir hann í samtali við The Telegraph.

Tölublaðið verður þýtt á sextán tungumál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert