Vill landhernað gegn Ríki íslams

John McCain öldungadeildarþingmaður í Jerúsalem í dag.
John McCain öldungadeildarþingmaður í Jerúsalem í dag. AFP

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain kallaði eftir því í dag að alþjóðlegt herlið yrði sent til að berjast gegn íslamistum í Sýrlandi og Írak en McCain er um þessar myndir um ferð um Miðausturlönd ásamt bandarískri þingnefnd.

„Mánuðum saman höfum við gert loftárásir á bæinn Kobane en höfum enn ekki rekið Ríki íslams þaðan,“ sagði McCain við blaðamenn í Jerúsalem samkvæmt frétt AFP. „Síðan loftárásirnar hófust hefur Ríki íslams aukið yfirráðasvæði sitt. Staðreyndin er sú að við þurfum á hermönnum að halda á jörðu niðri, við þurfum upplýsingar, við þurfum sérsveitir og við getum ekki litið á Sýrland og Írak sem tvo ólíka vígvelli því um er að ræða sama óvininn.“

McCain fer fyrir þingnefndinni sem heimsækir meðal annars Ísrael, Katar og Sádi Arabíu. Bandaríkjamenn ætla að senda rúmlega 400 hermenn til þess að þjálfa sýrlenska uppreisnarmenn til þess að berjast gegn Ríki íslams. Þjálfunin mun fara fram í Sádi Arabíu, Tyrklandi og Katar og hefst í vor. Bandaríkjamenn þjálfa þegar bæði íraska og kúrdíska hermenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert