Blair lagði lag sitt við Gaddafi

Tony Blair ritaði Múammar Gadddafi innilegt bréf árið 2007 til …
Tony Blair ritaði Múammar Gadddafi innilegt bréf árið 2007 til að útskýra að breskur dómstóll hefði ekki fallist á að vísa líbískum andófsmönnum úr landi. Reuters

Gögn sem fundust á skrifstofum líbískra stjórnvalda eftir fall Múammars Gaddafi árið 2011 benda til þess að ríkisstjórn Tony Blair hafi átt í nánu samstarfi við stjórn Gaddafi og leyft leyniþjónustu hans að áreita líbíska flóttamenn í Bretlandi. Hópur manna af líbískum uppruna ætlar að stefna breska ríkinu á grundvelli gagnanna.

Breska blaðið The Guardian segir frá skjölunum á vefsíðu sinnu en hópur lögfræðinga hefur unnið að því að safna þeim saman. Á meðal skjalanna er bréf sem Tony Blair, þáverandi forsætisráðherra, sendi Gaddafi árið 2007 þar sem hann þakkar líbíska forsetanum fyrir „frábæra samvinnu“ á milli leyniþjónusta ríkjanna tveggja. Það var á sama tíma og Bretar og Líbíumenn unnu saman að því að ræna líbískum andófsmönnum og flytja þá til Trípolí.

Lögfræðingarnir ætla að höfða skaðabótamál fyrir hönd sex líbískra manna, ekkja sjöunda mannsins og fimm breskra ríkisborgara af líbískum og sómölskum uppruna gegn breska ríkinu á grundvelli skjalanna. Þeir segja mennina hafa orðið fyrir óréttmætri fangelsun, kúgun, misbeitingu valds og áforma um líkamsárás.

Skjölin sína meðal annars að breska leyniþjónustan sendi yfir 1.600 spurningar til að leggja fyrir tvo leiðtoga líbísku stjórnarandstöðunnar eftir að þeim hafði verið rænt með fulltingi Breta. Þeim var flogið til fangelsa í Líbíu. Báðir segjast mennirnir hafa orðið fyrir grimmilegum pyntingum.

Upplýsingarnar sem fengust úr yfirheyrslum yfir mönnunum eru sagðar hafa verið notaðar gegn líbískum andófsmönnum sem búsettir voru á Bretlandi. Lögmenn breska ríkisins hafa hafnað því að hafa notað slíkar upplýsingar.

Bréfið sem Blair skrifaði Gaddafi var til að skýra líbíska forsetanum frá því að breskur dómstóll hefði ekki fallist á að vísa líbískum andófsmönnum úr landi. Blair taldi mikilvægt að niðurstaða dómstólsins græfi ekki undan góðu samstarfi ríkjanna sem hefði þróast á undangengnum árum, ekki síst á sviði hryðjuverkavarna.

Frétt The Guardian af samvinnu Tonys Blair og Múammars Gaddafi

Múammar Gaddafi var hrakinn frá völdum og drepinn árið 2011.
Múammar Gaddafi var hrakinn frá völdum og drepinn árið 2011. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert