Húðstrýkingu frestað aðra vikuna í röð

Læknir fangelsis í Sádí-Arabíu ákvað í gær að fresta aðra vikuna í röð húðstrýkingu Raif Badawi, bloggarans sem í fyrra var dæmd­ur í tíu ára fang­elsi fyr­ir að móðga íslam og jafn­framt til að þola eitt þúsund svipu­högg; fimmtíu högg á viku í tuttugu vikur.

Badawi hefur verið í haldi frá miðju ári 2012 en hann var handtekinn fyrir að stofna vefsvæði helgað frjálslyndi. Með því er hann sagður hafa vanvirt íslam. Hann var dæmdur þann 7. maí 2014 og auk fangelsis og svipuhögga verður honum bannað að ferðast í 10 ár eftir að hann verður leystur úr haldi. Þá er honum bannað að skoða fréttamiðla og hann dæmdur til að greiða jafnvirði 30 milljóna króna í sekt.

Badawi fékk fyrstu fimmtíu svipuhöggin þann 9. janúar. Samkvæmt því sem Amnesty segir var hann fluttur í járnum að torgi fyrir framan mosku í Jeddah eftir að bænastund lauk. Þar var hann húðstrýktur í viðurvist almennings og fulltrúa stjórnvalda. Badawi sagði ekki orð í þær fimmtán mínútur sem það tók að refsa honum.

Á föstudag fyrir viku stóð til að hann hlyti fimmtíu svipuhögg í viðbót en því var frestað þar sem sár hans höfðu ekki gróið og óttaðist læknir í fangelsinu að hann þyldi ekki frekari högg í bráð. Aftur stóð til að húðstrýkja Badawi í dag en aftur hefur refsingunni verið frestað, að læknisráði.

Vestrænir fjölmiðlar gera því skóna að fleira búi að baki en læknisskoðun og að stjórnvöld í Sádí-Arabíu séu með þessu að bregðast við fordæmingu þjóðarleiðtoga og fjölmennum mótmælum við sendiráð Sádí-Arabíu víða um heim.

Hér að neðan má sjá þegar Badawi fékk fyrstu fimmtíu svipuhöggin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert