Múslimar biðja fyrir Frakklandi

AFP

Múslimar munu koma saman klukkan 14:30 í dag að íslenskum tíma í þeim rúmlega tvö þúsund moskum sem til staðar eru í Frakklandi til þess að biðja fyrir landinu og framtíð þess. Þetta kemur fram á fréttavefnum Thelocal.fr. Þar segir einnig að undanfarnar tvær vikur hafi fleiri árásir á múslima verið tilkynntar til lögreglu en allt síðasta ár.

Fram kemur í fréttinni að um sé að ræða átak sem nefnist þjóðarbæn og er að frumkvæði ýmissa samtaka múslima í landinu. „Við báðum áður hver á sínum stað í síðustu viku en í þetta sinn mun allt samfélag múslima í Frakklandi taka höndum saman og tala einni röddu,“ er haft eftir Mohammed Moussaoui, forseta Sambands franskra moska. Ennfremur segir að hugsanlega verði um að ræða vikulegan atburð héðan í frá en aðstandendur framtaksins hafa sagt að hugmyndin sé að slík þjóðarbæn fari fram á föstudögum til framtíðar.

Þá kemur fram að 128 árásir á múslima hafi verið skráðar undanfarnar tvær vikur sem sé nánast sami fjöldi og allt árið 2014. Samtök gegn útlendingahatri segja að raunveruleg tala sé miklu hærri enda veigri múslimar sér gjarnan við að tilkynna slíkt þar sem margir þeirra séu sannfærðir um að það muni engu skila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert