5 ára missti auga í skotárás

AFP

Fimm ára gamall drengur missti annað augað eftir að hafa orðið fyrir skoti byssumanns sem skaut á hús hans í Detroit í Bandaríkjunum. Drengurinn liggur á sjúkrahúsi, en ástand hans er stöðugt.

Skotárásin átti sér stað á þriðjudag, og er talin hafa verið tilefnislaus. Skotið var úr bíl í gegnum rúðu á heimili drengsins og endaði skotið í andliti hans. Byssumannsins er enn leitað, en lögregla telur mögulegt að hann hafi ætlað sér að skjóta á annað hús í götunni. 

„Ég var niðri í kjallaranum þegar ég heyrði byssuskot og öskur. Ég kom upp og sá þá barnabarnið mitt í örmum dóttur minnar,“ sagði Jerome Brazelton, afi drengsins, í samtali við CBS fréttastofuna. „Hún hafði setið í sófanum á meðan krakkarnir hlupu um og voru að leika sér og litli drengurinn varð fyrir skotinu.“

Drengurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir aðgerð þegar í stað. „Staðan í dag er sú að hann missti annað augað, en hann komst í gegnum aðgerðina að öðru leyti,“ sagði Brazelton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert