„Þeir voru naktir“

Angkor Wat, hofið í fornu borginni.
Angkor Wat, hofið í fornu borginni.

Yfirvöld í Kambódíu hafa handtekið þrjá, franska ferðamenn fyrir að taka nektarmyndir af sér inn í Angkor-hofinu, þekktustu byggingu landsins. Hofið er á heimsminjaskrá UNESCO.

Ferðamennirnir, sem eru allir karlmenn, voru staðnir að verki í gær, að sögn talsmanns heimsminjanna í Angkor. 

„Hofið er staður tilbeiðslu og hegðun þeirra var óviðeigandi. Þeir voru naktir,“ sagði talsmaðurinn.

Keat Bunthan, lögreglumaður á svæðinu, segir að uppátækið sé móðgandi fyrir Kambódíumenn „Athæfi þeirra hefur áhrif á menningu o okkar. Enginn ætti að taka nektarmyndir af sér í þessum fornu hofum.“

Fram kemur í yfirlýsingu frá yfirvöldum á svæðinu að ferðamennirnir hafi viðurkennt brot sitt og séu fullir iðrunar. Þeir verða engu að síður ákærðir.

Fyrir nokkrum dögum fóru að birtast myndir á netinu af nöktum asískum konum inni í hofum í Kambódíu. 

Á Angkor-svæðinu eru rústir höfuðborgar Kmeraveldisins, þær elstu frá 9. öld. Svæðið er vinsælasti ferðamannastaður landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert