Fyrrverandi forseti Þýskalands látinn

Richard von Weizsaecker.
Richard von Weizsaecker. Af vef Wikipedia

Fyrrverandi forseti Þýskalands, Richard von Weizsaecker, er látinn, 94 ára að aldri. Kemur þetta fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Þýskalands.

Weizsaecker gegndi embætti forseta frá 1984 til 1994 og þannig markaðist valdatími hans af sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands. Sem meðlimur Kristilega demókrataflokksins var hann einnig borgarstjóri Vestur-Berlínar á níunda áratugnum.

Weizsaecker barðist fyrir Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og hlaut mikið lof að henni lokinni fyrir að reyna að fá samlanda sína til að horfast í augu við fortíðina. Ræða hans frammi fyrir þýska þinginu árið 1985, þegar þess var minnst að 40 ár voru liðin síðan Þýskaland undir stjórn Nasista leið undir lok, þótti mjög virðingarverð.

„Öll okkar, hvort sem við erum sek eða ekki sek, ung eða gömul, verða að viðurkenna fortíðina. Afleiðingar hennar hafa áhrif á okkur öll og við erum ábyrg fyrir henni. Sá sem lokar augunum fyrir fortíðinni er blindur á nútíðina,“ sagði Weizsaecker meðal annars í ræðunni.

Fréttastofa BBC greinir frá þessu.

Weizsaecker ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Helmut Schmidt, kanslara Vestur-Þýskalands, …
Weizsaecker ásamt Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Helmut Schmidt, kanslara Vestur-Þýskalands, við hina frægu landamærastöð Checkpoint Charlie. Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert