Harper Lee sár vegna umræðunnar

Harper Lee
Harper Lee AFP

Harper Lee er afar sár vegna ásakana um að þrýst hafi verið á hana að gefa út „týnda“ skáldsögu, segir lögfræðingur hennar í viðtali við New York Times. 

Lögfræðingur Lee, Tonja Carter, var að fara í gegnum skjalabunka frá Lee þegar hún fann handritið á síðasta ári. Í fyrstu hélt hún að þetta væri handrit að bókinni To Kill A Mockingbird því margar af persónum bókarinnar komu þar fram en við nánari athugun sá hún að það gat ekki verið. Um var að ræða handrit bókarinnar Go Set a Watchman sem kemur bráðlega út. Verður bókin önnur bók Harper Lee sem er 88 ára að aldri. To Kill A Mockingbird kom út árið 1960.

Að sögn Carter hefur umræðan komið á óvart. Í stað þess að nýrri bók sé fagnað þá þurfi Lee að vera heiður sinn og ákvarðanatöku.

 Lee skrifaði Go Set a Watchman áður en hún skrifaði To Kill A Mockingbird og hefur handritið því beðið útgáfu í tæpa sex áratugi.

Í frétt sem Einar Falur Ingólfsson ritaði í Morgunblaðið í síðustu viku vegna útgáfu bókarinnar kemur fram að allt frá útgáfu To Kill A Mockingbird hefur þetta verið ein mest lesna saga Bandaríkjanna, lesin í skólum þar í landi, þykir endurspegla misréttið sem svartir voru beittir þar í landi á einstaklega næman hátt og er eftirlæti ótal margra.

Tveimur árum eftir útkomuna var sagan komin á hvíta tjaldið í kvikmynd þar sem Gregory Peck fór á kostum sem ærlegi lögmaðurinn Atticus Finch sem tekur að sér að verja ungan hörundsdökkan mann, Tom Robinson, sem er sakaður um að hafa nauðgað ungri hvítri stúlku. Sagan er sögð frá sjónarhóli tveggja barna lögmannsins, Scout og Jem. Kvikmyndin hlaut þrenn Óskarsverðlaun, þar á meðal Peck fyrir eftirminnilegan leik sinn.

Síðan hefur Harper Lee ekkert gefið út og hefur verið kölluð frægasti einnar-bókar-höfundur sögunnar. Hún hefur frá árinu 1964 neitað að tala við fjölmiðla en hefur þó aldrei orðið einfari í heimabæ sínum í Alabama, eins og landi hennar, J.D. Salinger, sem lokaði sig af frá heiminum eftir að slá í gegn fyrir söguna Bjargvætturinn í grasinu.

Í dag er Harper Lee alveg heyrnarlaus og hefur nær alveg misst sjónina. Hún er ógift og barnlaus og til 2011 sá eldri systir hennar um öll hennar mál en hún var einnig heyrnarlaus og lést þá 103 ára gömul.

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert