Flakið fannst 53 árum síðar

„Ég átti að vera um borð í þessari vél og með réttu ætti ég að vera látinn,“ segir Hector Toledo sem tók afdrifaríka ákvörðun 3. apríl 1961. Þá ákvað hann að ferðast ekki með sömu flugvél og flestir félagar hans í Græna krossinum. Flugvélin hrapaði í Andesfjöllum og enginn komst lífs af.

Þetta er rifjað upp nærri 54 árum síðar sökum þess að flak flugvélarinnar fannst fyrst fyrir fáeinum dögum. Þá gengu síleskir fjallgöngumenn fram á vélina sem var að gerðinni Douglas DC-3, á allt öðru svæði en leitarmenn héldu að hún hefði hrapað á sínum tíma. Þeir neita reyndar að gefa upp nákvæma staðsetningu, til að koma í veg fyrir ágang.

Græni krossinn var síleskt knattspyrnufélag og voru liðsmenn þess að fljúga frá borginni Osorno til heimaborgarinnar, og höfuðborgar Síle, Santiago. Um borð voru 24 farþegar, þar af átta leikmenn og þjálfari liðsins. Með flugvélinni fórst meðal annars Eliseo Mourino sem lék á þessum tíma með landsliði Argentínu.

Með flugvélinni má segja að Græni krossinn hafi einnig farist því þrátt fyrir að reynt væri að halda liðinu saman gekk það ekki sem skyldi og var það að lokum sameinað öðru liði fjórum árum síðar undir nafni þess, Deportes Temuco.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert