Hafa litla samúð með Grikkjum

AFP

Eftir að hafa sjálfir gengið í gegnum mjög sársaukafullar efnahagsumbætur og aðhaldsaðgerðir hafa íbúar fátækustu ríkjanna á evrusvæðinu litla samúð með kröfum grískra stjórnvalda um að skuldastaða Grikklands verði tekin til endurskoðunar. Fólk er jafnvel þeirrar skoðunar að evrusvæðið gæti vel lifað af brotthvarf Grikkja af því.

Þetta kemur fram í frétt AFP og er þar vísað til íbúa í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og Slóvakíu sem eru eindregið þeirrar skoðunar að Grikkir eigi að standa við fyrri samninga um aðhaldsaðgerðir gegn því að fá neyðarlán frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ríkin fjögur hafi þurft að ganga í gegnum erfiðar aðhaldsaðgerðir og telja að það sama eigi að gilda fyrir Grikki.

Haft er eftir eftirlaunaþeganum Maiga Majore í Lettlandi að Lettar hafi líkt og Grikkir farið lent utanvegar í sínum efnahagsmálum en þurfa að læra af því. „Hvers vegna geta Grikkir ekki lært sína lexíu? Vitanlega vorkenni ég eftirlaunaþegum og þeim sem hafa ekki vinnu. En eftirlaunin mín eru 270 evrur á mánuði. Hversu mikið fá þeir? Örugglega meira.“

Einnig er tekið dæmi af vinsælum brandara meðal Slóvaka á samfélagsmiðlum. „Taktu Grikkja að þér fyrir 500 evrur. Hann mun gera allt sem þú hefur engan tíma til að gera: Sofa fram að hádegi, drekka kaffi, leggja sig um eftirmiðdaginn og á kvöldin fer hann á barinn fyrir þig. Loksins muntu hafa tíma til að vera í tveimur störfum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert