Lest út af sporinu í Kaliforníu

Lestarteinar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Lestarteinar. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. AFP

Að minnsta kosti þrjátíu manns eru slasaðir eftir að farþegalest fór út af sporinu í suðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum í dag. Lestin rakst á vörubíl sem var á teinunum en ökumaður bílsins er sagður hafa flúið af vettvangi.

Slysið átti sér stað kl. 5:45 að staðartíma nærri borginni Oxnard sem er um 120 kílómetra frá Los Angeles. Starfsmaður slökkviliðsins á svæðinu sagði fréttamanni CNN að ökumaður bílsins hafi verið handtekinn.

Á sjónvarpsmyndum mátti sjá að nokkrir vagnar lestarinnar fóru út af sporinu og vörubílinn alelda.

Lestin var á leið inn til Los Angeles með fjölda farþega rétt um það leyti sem morgunumferðin var að fara af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert