Geðlæknirinn var með heilaskaða

Geðlæknirinn greindi sjúklinga vitlaust og skrifaði upp á of stóra …
Geðlæknirinn greindi sjúklinga vitlaust og skrifaði upp á of stóra lyfjaskammta. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Heilbrigðisráðherra Danmerkur hefur hrint af stað rannsókn á hversu mikið af lyfseðilsskyldum lyfjum geðlæknir með heilaskaða hefur skrifað upp á til sjúklinga sinna frá árinu 2004 og hvort tengja megi lyfin við fleiri dauðsföll en nú þegar er vitað um. Þessu greinir Ríkisútvarp Danmerkur (DR) frá.

„Þetta er mjög alvarlegt mál. Sjúklingarnir hafa til að mynda fengið rangar greiningar og lyfseðla upp á stóra lyfjaskammta. Þess vegna er mikilvægt að við komumst til botns í málinu. Við þurfum að vita hvað hefur gengið á,“ segir heilbrigðisráðherrann Nick Hækkerup í fréttatilkynningu um málið.

 Geðlæknirinn hefur starfað á Vestur-Jótlandi árum saman en hann lenti í alvarlegu bílslysi árið 2002. Hann var í dái um nokkra hríð og í ljós kom að hann hafði orðið fyrir framheilaskaða.

Heilbrigðiseftirlitið fékk fyrstu alvarlegu ábendinguna um ranga meðferð sjúklinga hans fyrir 11 árum síðan. Það var hinsvegar ekki fyrr en árið 2013 að ákveðið var að svipta hann lækningaleyfi tímabundið. Samkvæmt DR hafa margir  sjúklingar læknisins bæði látið lífið og enn fleiri fengið rangar og hættulegar meðferðir undir eftirliti hans. Snertir málið yfir 1.000 sjúklinga hið minnsta.

 Í febrúar á þessu ári settu félögin Sind og Bedre Psykiatri fram þá kröfu að heilbrigðisráðuneytið rannsakaði hversu mörg dauðsföll meðal sjúklinga mannsins megi rekja til of stórra lyfjaskammta. Sama krafa var m.a. sett fram af Alan Nielsen, en sonur hans og fyrrum eiginkona voru bæði sjúklingar mannsins þegar þau létust.

„Það er svo gott [að rannsóknin fari fram]. Allir hafa verið óvissir um hver sannleikurinn var í þessu máli og ég hef haldið því fram allan tímann að það væru ekki öll kurl komin til grafar,“ segir Nielsen en furðar sig engu að síður á því að málið hafi ekki verið tekið til rannsóknar fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert