Óvíst með framsal Polanski

Roman Polanski.
Roman Polanski. AFP

Pólskur dómstóll frestaði því undir kvöld að taka afstöðu til þess hvort framselja beri kvikmyndagerðamanninn Roman Polanski til Bandaríkjanna. Ekki var tilgreind nákvæm dagsetning en talið er að dómstóllinn taki málið fyrir að nýju í aprílmánuði.

Polanski var sakaður um að hafa nauðgað hinni 13 ára Samönthu Geimer eftir kvikmyndatökur í Los Angeles árið 1977 en hann var 43 ára á þeim tíma. Hann játaði að hafa gerst sekur um kynmök við barn undir lögaldri en flúði land þar sem hann óttaðist að fá þungan dóm fyrir nauðgunina.

Polanski fékk franskan ríkisborgararétt árið 1976 eftir að hafa flutt þangað frá Póllandi. Hann var handtekinn í Sviss á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar árið 2009 en látinn laus eftir að hafa setið í níu mánuði í stofufangelsi.

Roman Polanski, sem heitir réttu nafni Rajmund Roman Thierry Polański, fæddist í París hinn 18. ágúst 1933. Hann flutti ásamt fjölskyldu sinni til Póllands, en foreldrar hans voru pólskir, árið 1937.

Fallist pólsi dómstóllinn á að framselja beri Polanski til Bandaríkjanna á hann yfir höfði sér þungan dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert