Fórnarlömbin allt niður í 18 mánaða

Barnaníðingar koma sér gjarna fyrir á Filippseyjum þar sem gríðarleg …
Barnaníðingar koma sér gjarna fyrir á Filippseyjum þar sem gríðarleg fátækt ríkir. EPA

Meðal fórnarlamba rúmlega fimmtugs Ástrala sem var handtekinn í síðasta mánuði á Filippseyjum er átján mánaða gömul stúlka. Á myndskeiði á netinu sést þar sem hann pyntar barnið bæði andlega og líkamlega.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara í Manila er fólks, sem greiddi fyrir myndefni mannsins, leitað út um allan heim.

Gerard Peter Scully, 51 árs, var handtekinn hinn 20. febrúar og segir Angelito Magno, sem stýrir deild lögreglunnar sem handtók hann, að foreldrar barnsins hafi vitað af ofbeldinu og misnotkuninni á stúlkunni. Magno neitar í samtali við AFP-fréttastofuna að veita frekari upplýsingar um stúlkuna.

Scully flúði réttvísina frá Ástralíu til Filippseyja árið 2011. Þar setti hann upp fyrirtæki sitt en það sérhæfir sig í sölu á klámi og níði á netinu. Tældi hann börn til sín með mat og peningum. Beitti hann þau síðan kynferðislegu ofbeldi og tók níðið upp á myndbönd sem hann seldi síðan út um allan heim. Hann á yfir höfði sér ákæru fyrir mansal sem getur þýtt lífstíðardóm verði hann fundinn sekur.

Eins er rannsakað hvort hann hafi myrt stúlku fyrir tólf árum en hann er grunaður um að hafa kyrkt hana og grafið undir húsinu sem hann leigði á þeim tíma.

Tvær stúlkur sem Scully á að hafa beitt ofbeldi á síðasta ári segja að þær hafi verið þvingaðar af honum til þess að grafa sínar eigin grafir. En þeim tókst að flýja áður en hann myrti þær.

Samkvæmt gögnum sem hafa fundist hafa útlendingar greitt honum fimm þúsund Bandaríkjadali, 668 þúsund krónur, og eitt þúsund Bandaríkjadali fyrir myndefni á netinu. Lögreglan hefur haft uppi á kaupendum í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Evrópu en bæði ástralska lögreglan og Interpol aðstoða við rannsóknina. 

Lögregluyfirvöld hafa varað við því að Filippseyjar séu að verða helsta miðstöð barnaníðsiðnaðar á netinu þar sem velta nemur milljörðum Bandaríkjadala. Er það einkum gríðarleg fátækt meðal íbúa og gloppur í lögum sem gera það að verkum að slíkur iðnaður þrífst vel í landinu. Flestir kaupendur barnaníðs á netinu eru Bandaríkjamenn og Evrópubúar sem eru reiðubúnir til að reiða af hendi háar fjárhæðir til þess að geta horft á níðinga misþyrma börnum. 

Handtaka á Hollendingi í heimalandinu í fyrra hefur leitt lögreglu á slóð barnaníðinga á Filippseyjum sem beittu stúlkubörn á aldrinum eins til tólf ára svívirðilegu ofbeldi sem í einhverjum tilvikum leiddi til dauða fórnarlambanna.

Eric Nuqui, sem stýrir mansalsdeild lögreglunnar á Filippseyjum, segir í samtali við Inquirer að myndskeið sem hollenska lögreglan komst yfir sýni nakta eins árs gamla stúlku beitta hrottalegu ofbeldi af eldri konu sem er með grímu fyrir andlitinu. Búið er að hafa uppi á gerandanum sem er fyrrverandi sambýliskona Scullys. Að sögn Nuqui eru engin takmörk fyrir því hvað fórnarlömb Scullys og félaga þurftu að þola, hvað sem var ef kaupandi óskaði eftir því. 

Nuqui og fleiri lögreglumenn, sem neyddust til þess að horfa á myndskeiðið sem sýnir pyntingarnar sem voru lagðar á barnið, segja myndskeiðið það skelfilegasta sem þau hafi nokkurn tíma þurft að horfa á.  

Inquirer

Daily Mail

 Fleiri fréttir af hryllingnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert