Hætt í verkfalli

mbl.is/afp

Flugliðar hjá skandínavíska flugfélaginu SAS bundu enda á verkfall sitt fyrir skömmu en flugfélagið hafði hótað því að þeir sem ekki mættu til starfa klukkan 12 að staðartíma, 11 að íslenskum tíma, yrðu reknir.

Verkfallið var dæmt ólöglegt um helgina en það hófst fyrir fjórum sólarhringum og hefur haft mikil áhrif á flug um Kastrupflugvöll í Kaupmannahöfn, samkvæmt frétt Politiken.

En allt bendir til þess að flugmenn hjá helsta keppninaut SAS, Norwegian, leggi niður störf síðar í vikunni. 

Jakob Esposito, talsmaður flugliða hjá SAS, segir að þrátt fyrir að verkfallinu hafi verið aflýst sé deilunum hvergi nærri lokið. Ástæða verkfallsins er ákvörðun SAS að flytja flugliðana til í starfi og ráða þá til Cimber, lággjaldaflugfélags í eigu SAS, þar sem þeir njóta verri kjara.

<div> </div>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert