Vistaður á unglingaheimili fjarri föður sínum

Oussama el-Saadi, yfirmaður Grimhøj moskunnar í Árósum
Oussama el-Saadi, yfirmaður Grimhøj moskunnar í Árósum AFP

Barnaverndaryfirvöld í Árósum létu vista fimmtán ára gamlan pilt á unglingaheimili til þess að koma í veg fyrir að faðir hans næði að telja hann á að fara til Sýrlands og berjast með íslömskum öfgahópum.

Greint er frá málinu í Jyllands Posten í gær en þar kemur fram að drengurinn, sem er múslími, hafi verið settur á unglingaheimili í september í fyrra til þess að verja hann fyrir öfgaskoðunum föður síns.

Þessi ákvörðun var tekin af barnaverndaryfirvöldum eftir að í ljós kom að drengurinn var farinn að sækja Grimhøj-moskuna sem er þekkt fyrir að koma öfgafullum skoðunum í huga ungmenna og neita að gagnrýna víg Ríkis íslams og annarra öfgahreyfinga.

Mjög er fjallað um drenginn í dönskum fjölmiðlum um helgina. Í Berlingske er rætt við lögfræðing föður drengsins, Tage Gøttsche, sem segir að ekki sé hægt að þvinga barn í gæslu vegna gruns um að það sé verið að innræta því öfgafullar skoðanir.

Mjög skiptar skoðanir eru meðal Dana um vistun piltsins en ýmsir telja mun eðlilegra að vista börn á fósturheimilum sem búa við slíkar aðstæður heima við en að loka þau inni á unglingaheimilum.

Á síðasta ári fóru 30 íbúar Árósa, en alls búa um 324 þúsund manns í borginni, til Sýrlands til að taka þátt í heilögu stríði. Talið er að um tuttugu þeirra 110 Dana sem hafa yfirgefið heimalandið til þess að berjast í Sýrlandi hafi stundað Grimhøj-moskuna í Árósum. 

Foreldrar piltsins skildu árið 2012 og hann bjó hjá móður sinni ásamt systkinum sínum. Ári síðar fer hann að dvelja tímabundið hjá föður sínum og í mars 2013 hefur lögreglan samband við barnaverndaryfirvöld vegna þess að hún óttast um áhrif föður á son sinn varðandi öfgaskoðanir. Í september 2013 lætur kennari drengsins vita af því að hann hafi breyst úr því að vera ljúfur og kærleiksríkur í að verða neikvæður og fjarrænn. Eins vekja ummæli hans undrun kennarans.

Læknir móður piltsins lætur borgaryfirvöld vita í apríl 2014 að hún sé farin að óttast um son sinn sem meðal annars er farinn að tala um heilagt stríð. Það er síðan í ágúst 2014 sem lögregla lætur yfirvöld í Árósum vita af því að drengurinn sé farinn að tala um að fara til Sýrlands og sæki Grimhøj-moskuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert