Sprengjuhótun í Bergen

Skjáskot af bt.no

Flesland flugvöllurinn í Bergen í Noregi hefur verið rýmdur af öryggisástæðum sem ekki hafa fengist gefnar upp. Samkvæmt Bergens Tidende fá þær flugvélar sem standa á flugbrautinni eftir lendingu ekki leyfi til að koma að flugstöðvarbyggingunni.

Margir farþegar hafa tjáð BT að um sprengjuhótun gegn flugvél sé að ræða. „Þeir hafa gefið upp að það er sprengjuhótun í flugvél. Það var starfsmaður hjá SAS sem sagði það. Nú er fólk flutt á hótelið. Þeir hafa sagt að þetta geti tekið langan tíma,“ segir Svein Arild Vatsø í samtali við miðilinn.

BT hefur einnig náð tali af farþega í flugi frá Þrándheimi en flugvél hans stendur enn úti á flugbrautinni. Sá segir einnig að um sprengjuhótun sé að ræða.

Engin svör hafa fengist frá lögreglu en ljóst er að engar flugvélar fá að lenda á flugvellinum eins og er.  Mikið af lögreglu- og slökkviliðsmönnum er á svæðinu.

Uppfært 20:05

Flugfélagið Widerøe hefur staðfest að um sprengjuhótun gegn flugvél á þeirra vegum sé að ræða að sögn NRK.

Hótunin barst í gegnum spjallsíðu á vegum fyrirtækisins. Talsmaður Widerøe segir að fyrst hafi flugstjóranum verið gert viðvart og síðan lögreglunni. Ekki er vitað hver setti hótunina fram. Verið var að undirbúa flugvélina fyrir flugtak þegar hótunin barst. 34 farþegar voru um borð og hafa allar flugvélar á flugbrautinni verið kyrrsettar auk þess sem flugvélum á leiðinni til Bergen hefur verið gert að lenda á flugvöllum í nágrannabæjum.

 Uppfært 20:25

Flugstöðin hefur nú verið opnuð á ný og hefur hættunni verið afstýrt samkvæmt NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert