Finnst miða of hægt í viðræðum við Grikki

Alexis Tsipras og Jean-Claude Juncker ræddu við blaðamenn áður en …
Alexis Tsipras og Jean-Claude Juncker ræddu við blaðamenn áður en þeir hófu að funda í morgun. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, er ósáttur við hversu hægt miðar í viðræðum við Grikki um breytingar á lánapakka landsins. Hann segir hins vegar enga hættu á að viðræðurnar sigli í strand með þeim afleiðingum að Grikkir yfirgefi evrusvæðið.

„Ég er ekki sáttur við þróunina síðustu vikur. Ég tel að við höfum ekki náð fullnægjandi árangri en við munum reyna að þrýsta á að viðundandi árangur náist um það sem við erum að semja um,“ segir Juncker en hann og Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sitja nú á fundi og fara yfir stöðu mála.

Juncker hefur enga trú á að Grikkir yfirgefi evrusvæðið enda vilji hann sjá Evrópu standa saman ekki sundraða. „Þetta er ekki rétti tíminn fyrir deilur, þetta er rétti tíminn fyrir samstarf,“segir Juncker.

Tsipras, formaður Syriza flokksins tók við embætti forsætisráðherra í janúar, er í heimsókn í Brussel og París þar sem hann á fundi með helstu ráðamönum.

 En á sama tíma og Juncker efast um brotthvarf Grikka af evrusvæðinu þá vill rúmlega helmingur Þjóverja að Grikkir yfirgefi evru-svæðið. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem birt var í dag. 

80% aðspurðra er ósáttur við framgöngu Grikkja í samningaviðræðum við ESB, samkvæmt könnuninni sem var unnin fyrir ZDF.

Stuðningsmenn þess að Grikkir verði áfram á evrusvæðinu eru 40% samanborið við 52% fyrir tveimur vikum. Einungis 11% aðspurðra er sannfærðir um heilindi stjórnvalda í Grikklandi í viðræðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert